Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Stjórnsýslukæra - gjaldtaka tollstjóra vegna aðgangs að upplýsingum úr Tollalínu

[…]
[…]
[…]

 

Reykjavík 29. maí 2013
Tilv.: FJR12040043/16.2.2

Efni: Stjórnsýslukæra vegna gjaldtöku embættis tollstjóra vegna aðgangs að upplýsingum úr Tollalínu.

Vísað er til stjórnsýslukæru, dags. 23. apríl 2012, þar sem kærð er, fyrir hönd aðildarfélaga [X], gjaldtaka vegna aðgangs að upplýsingum úr tollalínu tollstjóra. Kærandi krefst þess að ráðuneytið taki til skoðunar lögmæti gjaldtöku embættis tollstjóra samkvæmt Gjaldskrá vegna upplýsinga- og gagnamiðlunar úr tölvukerfi tollstjóra með aðgangi að Tollalínunni á tollur.is. Samtökin gera þá kröfu að ráðuneytið felli úr gildi þá gjaldskrá standist hún ekki kröfur varðandi töku þjónustugjalda. Kærunni er beint til fjármála- og efnhagsráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í málinu liggur fyrir ákvörðun embættis tollstjóra dags. 2. febrúar 2012 um lögmæti gjaldtökunnar, upplýsingar frá embætti tollstjóra um gjaldaliði vegna aðgangs að Tollalínu frá 12. febrúar 2013 og athugasemdir [X] vegna þeirra upplýsinga dags. 8. mars 2013.

Málavextir

Tollstjóri innheimtir gjald fyrir aðgang að upplýsingum og gagnamiðlun úr tölvukerfi embættisins. Í Tollalínunni geta innflytjendur, útflytjendur, farmflytjendur og tollmiðlarar óskað eftir upplýsingum og gögnum um innflutning eða útflutning á eigin vegum. Hægt er að fá mismunandi aðgang að upplýsingum og gögnum með því að sækja um fullan eða takmarkaðan aðgang að Tollalínunni. Stjórnsýslukæra [X] snýr eingöngu að þeim hluta er varðar fullan aðgang. Um gjald fyrir fullan aðgang segir m.a. um í gjaldskránni að grunngjald skuli vera 2.200 kr. á mánuði og 100 uppflettingar séu innifaldar í því. Hver uppfletting umfram 100 á mánuði kostar 17 kr. Pöntun á sérstökum vinnslum kostar 25 kr. fyrir hvern vinnulista.
Gjaldskráin er sett með heimild í 9. tölul. 195. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þar segir að tollstjóra sé heimilt að taka tollalínugjald vegna upplýsinga- og gagnamiðlunar úr tölvukerfi tollyfirvalda (Tollalínu). Gjaldið skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu, m.a. úrvinnslu gagna og flutning þeirra um upplýsingaveitur.

Málsástæður kæranda
Í kærunni rekur kærandi að af hálfu [X] séu uppi efasemdir um lögmæti gjaldtökunnar, þ.e. hvað varðar þá kostnaðarliði sem liggja þar að baki. Kærandi vísar til athugasemda með 195. gr. tollalaga og orðalags greinarinnar sjálfrar þar sem tiltekið er að fjárhæð gjaldsins skuli miðuð við þann kostnað sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem veitt er. Gjaldtaka á grundvelli 195. gr. skal því grundvallast af þeim sjónarmiðum er varða töku þjónustugjalda.

Kærandi rekur síðan að hver afgreiðsla á hverju einstöku máli hjá Tollalínu geti kallað á fjölda uppflettinga og jafngildir hver uppfletting einu „klikki“ á síðunni. Það er því ekki svo að gjaldfært sé samkvæmt hverju einstöku máli heldur er gjaldfært fyrir hverja einstaka færslu innan tiltekins máls.

Til samanburðar og útskýringar á þessu fyrirkomulagi er bent á að ef samskonar kerfi væri við lýði í heimabanka þyrfti að greiða fyrst fyrir yfirlit, síðan aftur fyrir að fara inn á bankareikning og síðan aftur fyrir að fara inn á síðuna til að millifæra o.s.frv.

Af hálfu kæranda er því svo haldið fram að gjaldið sé of hátt og að það sé hærra en sem nemur þeim tilkostnaði sem tollstjóri hafi af því að veita bæði aðgang að Tollalínu og upplýsingum úr því kerfi. Inn í það mat komi einnig til skoðunar hvaða kostnaðarliði stjórnvaldi er heimilt að leggja til grundvallar ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalda. Kærandi heldur því fram að ekki sé unnt að ætla að hver uppfletting kalli á slíkan viðbótarkostnað sem geti réttlætt það gjald sem lagt er á gjaldendur og fellt er undir þjónustugjöld. Almenn sjónarmið um töku þjónustugjalda eru því næst rakin, nánar tiltekið að gjaldtaka megi ekki vera hærri en sem nemur kostnaði sem hlýst af því að veita umrædda þjónustu, um sé að ræða beinan kostnað sem standi í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu og að af 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar megi ráða að stjórnvaldi sé með öllu óheimilt að afla almennra rekstrartekna með innheimtu þjónustugjalda.

Til viðbótar við framangreint benda samtökin á að gjaldtaka vegna aðgangs að upplýsingum úr Tollalínu kunni að ganga gegn ákvæðum meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að ráðuneytið taki gjaldskrá tollstjóra vegna upplýsinga- og gagnamiðlunar úr tölvukerfi Tollstjóra með aðgangi að Tollalínunni til skoðunar og felli hana úr gildi standist hún ekki kröfur sem gerðar eru til þjónustugjalda.

Niðurstaða

Þann 17. janúar sl. óskaði ráðuneytið eftir því við tollstjóra að hann veitti ráðuneytinu upplýsingar um þá kostnaðarútreikninga sem liggja til grundvallar gjaldskrá tollstjóra vegna upplýsinga- og gagnamiðlunar úr tölvukerfi tollstjóra með aðgangi að Tollalínunni. Svar barst ráðuneytinu með bréfi dags. 12. febrúar sl. Í svari tollstjóra er tekið saman yfirlit yfir kostnað og tekjur vegna Tollalínunnar árin 2010, 2011 og 2012. Samkvæmt samantektinni er kostnaður sem embættið hefur þurft að bera af Tollalínunni öll árin hærri en sem nemur tekjunum. Er þar fyrst og fremst um að ræða kostnað sem embættið hefur þurft að bera samkvæmt reikningum frá rekstraraðila Tollalínunnar. Til viðbótar við reikninga frá rekstraraðila er gert ráð fyrir að 20% af starfi eins starfsmanns í tollakerfadeild tollstjóra sé ráðstafað í reksturs Tollalínunnar.

Við mat á því hvort að gjaldskrá fyrir innheimtu þjónustugjalda vegna aðgangs að Tollalínu sé í samræmi við kröfur stjórnsýsluréttar, um töku þjónustugjalda, lítur ráðuneytið til þess hvort nægilega traustar reikningslegar og efnislegar forsendur liggi til grundvallar innheimtu gjaldsins. Jafnframt lítur ráðuneytið til þess hvort kostnaðurinn sé í nánum og efnislegum tengslum við þjónustuna. Í málinu er ekki deilt um það hvort tollstjóri hafi að lögum næga heimild til töku gjaldsins.

Útreikningar tollstjóra á kostnaði við reksturs Tollalínu samanstanda af tveimur þáttum, annars vegar greiddum reikningum til rekstraraðila og hinsvegar 20% af launum eins starfsmanns í tollakerfadeild tollstjóra. Þó svo að eingöngu sé litið til kostnaðar samkvæmt greiddum reikningum er kostnaður tollstjóra af því að veita þjónustuna nánast sá sami við þær tekjur sem embættið hefur af henni. Ráðuneytið telur hinsvegar óraunhæft að áætla að engin kostnaður myndist á tollstjóraembættinu vegna Tollalínunnar.

Möguleiki á uppflettingum fyrir innflytjendur í Tollalínu tollstjóra er þjónusta sem embættinu er ekki skylt að veita samkvæmt tollalögum og verður því að telja rétt að notendur þjónustunnar beri þann kostnað sem hlýst af notkun hennar.

Að öllu þessu virtu telur ráðuneytið að gjaldskrá tollstjóra vegna upplýsinga- og gagnamiðlunar úr tölvukerfi tollstjóra með aðgangi að Tollalínunni á tollur.is hafi verið reist á fullnægjandi grundvelli og standist grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um töku þjónustugjalda. Ráðuneytið telur kostnaðarútreikning þann sem tollstjóri hefur sýnt fram á í bréfi dags. 12. febrúar 2013, traustan og jafnframt að sá efnislegi mælikvarði sem gjaldtakan er byggð á sé í nægilegum tengslum við þjónustuna.

Úrskurðarorð

Krafa [X], um að ráðuneytið um felli úr gildi gjaldskrá tollstjóra vegna upplýsinga- og gagnamiðlunar úr tölvukerfi tollstjóra með aðgangi að Tollalínunni er hafnað.


Fyrir hönd ráðherra






Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum